Forræktun krydd og matjurta fer fram innandyra í 6 til 8 vikur áður en þeim er plantað út í garð. Kjörhiti fyrir spírun er 18 til 20°C, en eftir spírun er best að halda hitanum á milli 10 og 17°C. Plöntur eru tilbúnar til dreifplöntunar þegar þær hafa myndað tvo blaðkransa auk kímblaða. Fyrir þá sem ekki hafa aðstöðu eða vilja til að forrækta sjálfir er hægt að kaupa plöntur tilbúnar til gróðursetningar í gróðrarstöðvum.

Áður en plöntum er plantað í garðinn er gott að undirbúa með því að stinga fyrir beðum sem eru 20 til 30 cm á hæð. Þetta tryggir að jarðvegurinn hitni fyrr. Beðin ættu að vera um einn meter á breidd og hafa 60 cm bil á milli til að auðvelda umhirðu. Ef snyrtilegri uppsetningu er óskað, er hægt að smíða ramma utan um beðin til að halda jarðveginum á sínum stað. Þar sem rými er lítið er einnig gott að rækta krydd- og matjurtir í kerum eða með sumarblómum.

Algengt er að planta krydd- og matjurtum úti um mánaðamótin maí og júní. Útplöntunartími fer þó eftir því hvort jarðvegurinn hafi hitnað nægilega, þ.e. a.m.k. yfir 6°C, og hættan á næturfrosti sé liðin hjá. Best er að gróðursetja í skýjuðu veðri eða í vætu, þar sem slíkar aðstæður hjálpa plöntunum að aðlagast betur. Akrýldúkur getur verið góður stuðningur fyrstu vikurnar þar sem hann heldur hita á plöntunum og veitir vörn gegn skaðvöldum, eins og kálflugu.

Hægt er að fá Akrýldúk hjá byggingavöruverslunum og gróðrastöðvum.