Kryddjurtir eru næringarríkar og mikið notaðar í matargerð, þar sem þær bæta bæði bragð og gæði réttanna sem bornir eru fram. Vegna þessa hefur eftirspurn frá neytendum aukist. Kryddjurtir í pottum eru lifandi plöntur. Þær eru þó viðkvæmari en hefðbundið grænmeti og þurfa sérstaka umönnun. Við förum nú yfir hvernig er best að geyma ferskar kryddjurtir.

Hvernig er best að geyma ferskar kryddjurtir?

▪ Kryddjurtir eru ekki kælivara og ættu ekki að geymast í kæli.
▪ Besti hitinn fyrir kryddjurtir er 8-14 °C, þannig að stofuhiti er betri en kæliskápur.
▪ Ef kryddjurtir eru geymdar í meira en 3-4 daga þurfa þær vökvun.
▪ Kryddjurtir eru viðkvæmar fyrir hnjaski, svo það er mikilvægt að meðhöndla þær varlega.

Hollusta kryddjurta

Algengar kryddjurtir eins og basilíka, mynta, kóríander, steinselja og timían eru ekki aðeins notaðar til að bæta bragð í mat, heldur innihalda þær einnig ýmis hollustuefni, þar á meðal vítamín og steinefni. Sérstaklega athyglisvert er að þær eru rík uppspretta andoxunarefna, sem styðja varnarkerfi líkamans. Andoxunarefni hjálpa til við að verjast skaðlegum radíkölum og draga úr oxun í líkamanum. Rannsóknir hafa sýnt að andoxunarvirkni í íslenskum kryddjurtum er mikil samanborið við ýmsar tegundir grænmetis.